Erlent

Fjöldi látinna í hörmungunum á Havaí hækkar enn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarsveitarmenn á göngu í Lahaina á Havaí í gær.
Björgunarsveitarmenn á göngu í Lahaina á Havaí í gær. AP/Rick Bowmer

Alls hafa 89 andlát verið staðfest og fjöldi er slasaður í miklum gróðureldum á eyjunni Maui sem er hluti af Havaí-ríki Bandaríkjanna.

Josh Green, ríkisstjóri Hawaii, óttast að verulega eigi eftir að fjölga í hópi látinna. Hundruð eru ófundin og mikill fjöldi fólks hefst við í neyðarskýlum á eyjunni eftir að hafa flúið eldtungurnar.

Green segir eldinn án nokkurs vafa mestu hörmungar í sögu Havaí.

„Við getum bara beðið og veitt þeim sem komust lífs af stuðning. Við einbeitum okkur að því að sameina fólk sem hefur orðið viðskila, koma því í húsaskjól, veita því heilbrigðisþjónustu og svo snúum við okkur að uppbyggingu.“

Fjallað var um stöðu mála á Havaí í kvöldfréttum okkar í gær.

Slökkviliðsmenn hafa náð tökum á eldunum sem þó á enn eftir að slökkva til fulls. Meðal annars í bænum Lahaina sem er að miklu rústir einar eftir eldana.

Fellibylurinn Dóra sem átti leið langt suður fyrir Havaíeyjaklasann er talinn hafa átt þátt í sterkum vindi sem blés lífi í gróðurelda sem kviknuðu á Maui á þriðjudagskvöld. Ofsinn í eldunum kom íbúum og yfirvöldum á eyjunni á óvart, jafnvel þannig að fullorðnir og börn hafa þurft að kasta sér í sjóinn til þess að forða sér undan bálinu.

Þúsundir íbúa og ferðamanna hafa þurft að flýja heimili sín og dvalarstaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×