Skoðun

Um tilefnislausa von

Oddur Sturluson skrifar

Lífsbaráttan hefur aldrei verið auðveld en þótt mörg þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir í dag séu fordæmalaus er sá árangur sem hefur þó áunnist slíkur að fæstir myndu óska sér af alvöru að hafa fæðst á öðrum tíma í mannkynssögunni. Hvert einasta skref sem hefur verið tekið í átt að nútímanum hefur kostað blóð, svita, tár en umfram allt byggst á von. Von, sem oft getur virst tilefnislaus, um að hlutirnir gætu breyst og orðið betri. Við byggjum okkar samfélag á grunni sem vongóðir frumkvöðlar á öllum sviðum samfélagsins hafa steypt.

Í opinberri umræðu um nýsköpun er oft lögð áhersla á nýsköpun sem virðisaukandi og atvinnuskapandi framtak. Vissulega eru þetta verðmætar afurðir nýsköpunar. Við megum þó ekki gleyma því að nýsköpun sem passar ekki inn í dæmigert fyrirkomulag þar sem aðalmarkmiðið er að hámarka gróða hluthafa, verður að eiga sér stað. Samfélagsleg nýsköpun er lykilþáttur í að bregðast við þeim áskorunum sem ráðandi hagnaðardrifin kerfi geta ekki tekist á við.Áskoranirnar eru miklar og geta virst yfirþyrmandi en þær eru svo sannarlega til staðar og munu ekki vera leystar án fyrirhafnar. Valið er einfalt. Við getum gefist upp og beðið eftir því að verstu spár rætist. Eða við getum unnið saman að því að byggja framtíð þar sem enginn mun óska þess að hafa frekar fæðst á öðrum tímapunkti í mannkynssögunni.

Á þriðjudaginn næstkomandi, 15. ágúst frá kl. 12:00-13:00 í Grósku verður opinn umræðufundur þar sem sérfræðingar og frumkvöðlar munu fjalla um samfélagslega nýsköpun og hvernig vaxtarrýmið Snjallræði er hannað til að styðja við samfélagslega frumkvöðla. Ég hvet alla áhugasama til að mæta og kynna sér málið.

Höfundur er verkefnisstjóri Snjallræðis.




Skoðun

Sjá meira


×