Keflavík hafði áður tilkynnt að Sigurður myndi hætta með liðið eftir yfirstandandi leiktíð en í gær, degi eftir 3-1 tap liðsins fyrir HK, greindi félagið frá því að Sigurður myndi hætta þá þegar.
Orðrómar hafa verið á kreiki þess efnis að Sigurður taki við liði Fram, en Ragnar Sigurðsson og Aðalsteinn Aðalsteinsson tóku við liðinu eftir að Jóni Þóri Sveinssyni var sagt upp þar á dögunum. Sigurður kveðst ekki hafa heyrt frá Frömurum.
„Fram hefur ekki talað við mig og ég ekki við þá. Það er kjaftasaga sem ég veit ekki hvaðan kemur,“ segir Sigurður Ragnar í samtali við Vísi. Lengra viðtal við Sigurð birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, sem og á Vísi.
Haraldur Freyr Guðmundsson, sem var aðstoðarþjálfari Sigurðar í Keflavík, stýrir liðinu út leiktíðina og hefur stjóratíð sína gegn Val í Reykjanesbæ á sunnudag.
Fram sækir KR heim sama dag í Bestu deildinni. Liðin tvö eru í fallsæti; Fram með 15 stig í ellefta sæti en Keflavík með tíu stig á botninum.