Fótbolti

Birkir sagður fara frítt eftir að hafa spilað nánast kauplaust

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason með fyrirliðabandið í einum af 113 A-landsleikjum sínum. Hann var í landsliðshópnum í leikjunum í júní, gegn Slóvakíu og Portúgal, en kom ekki við sögu.
Birkir Bjarnason með fyrirliðabandið í einum af 113 A-landsleikjum sínum. Hann var í landsliðshópnum í leikjunum í júní, gegn Slóvakíu og Portúgal, en kom ekki við sögu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Birkir Bjarnason, sá leikjahæsti í sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, virðist hafa lokið dvöl sinni hjá Viking í Noregi. Hann gæti verið á leið aftur til Ítalíu, á kunnuglegar slóðir.

Frá þessu greina norskir miðlar og í frétt Aftenbladet segir að ítalska félagið Brescia vilji endurheimta Birki, sem síðast lék með liðinu á árunum 2020-21. Brescia féll úr ítölsku B-deildinni í vor, eftir umspil, og leikur því í C-deildinni í vetur.

Birkir, sem er 35 ára gamall, lék með Adana Demirspor í Tyrklandi í tvö ár en skipti yfir til Viking í vor í kjölfarið á jarðskjálftanum mannskæða í febrúar, skömmu áður en samningur hans við tyrkneska félagið átti að renna út.

Í grein Aftenbladet segir að þegar Birkir kom í mars hafi planið aðeins verið að hann gæti spilað sig í form með Viking, og að hann hafi varla verið með nein laun hjá félaginu.

Birkir hafi verið opinn fyrir því að vera áfram hjá Viking, félaginu sem hann hóf meistaraflokksferilinn með á sínum tíma, en á sama tíma verið skýr varðandi það að mögulega færi hann frá félaginu í sumar, eins og nú virðist ætla að verða raunin.

Birkir er búinn að spila ellefu deildarleiki fyrir Viking í sumar og skora tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×