Innlent

Kristján Þorvaldsson er látinn

Jakob Bjarnar skrifar
Kristján Þorvaldsson fjölmiðlamaður er látinn. Hann bjó síðustu ár ævi sinnar í Danmörku.
Kristján Þorvaldsson fjölmiðlamaður er látinn. Hann bjó síðustu ár ævi sinnar í Danmörku.

Kristján Þorvaldsson, ritstjóri og fjölmiðlamaður, varð bráðkvaddur sunnudaginn 6. ágúst á Lálandi í Danmörku.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðstandendur sendu frá sér. Kristján fæddist þann 4. maí árið 1962 á Fáskrúðsfirði. Hann var yngstur fjögurra systkina, sonur hjónanna Þorvaldar Jónssonar og Oddnýjar Aðalbjargar Jónsdóttur. Hann ólst upp á Fáskrúðsfirði þar til hann flutti til Reykjavíkur til náms við Menntaskólann við Sund. 

Kristján starfaði í fjölmiðlum nær allan sinn starfsaldur, mest við prentmiðla. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Séð og heyrt og var ritstjóri þess um tíu ára skeið. Hann ritstýrði fjölda annarra miðla svo sem Pressunni, Mannlífi og Vikunni. Hann starfaði um tíma sem útvarpsmaður í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og hélt þar einnig úti þættinum Sunnudagskaffi um nokkurra ára skeið.

Kristján skrifaði ævisögu Guðmundar Árna Stefánssonar: Hreinar línur, sem kom út árið 1994. 

Kristján bjó síðustu ár ævi sinnar á Lálandi í Danmörku hvar hann lést sunnudaginn 6. ágúst. Hann lætur eftir sig sambýliskonu, tvö börn, tvö stjúpbörn og sjö barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×