Íslenski boltinn

„Maður sá atburði sem maður á ekki að sjá inni á vellinum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir þjálfa FH í sameiningu.
Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir þjálfa FH í sameiningu. vísir/hulda margrét

Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, var ekki sáttur með frammistöðu síns liðs gegn Þór/KA, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. FH tapaði leiknum, 0-1.

„Þetta var erfiður fyrri hálfleikur, slakur af hálfu FH. Ég var nokkuð ánægður með hvernig liðið brást við í upphafi seinni hálfleiks og ég tek eitthvað út úr því,“ sagði Guðni við Vísi eftir leikinn.

„En færanýting var arfaslök. Það er ótrúlegt að fá ekkert út úr þessu. Ég veit ekki hvað við áttum margar hornspyrnur en fyrir utan tvær vorum við ekki líklegar til að skora. Við fórum illa með stöður hér og þar á vellinum. Það vantaði ansi mikið upp á hjá FH í dag.“

FH byrjaði seinni hálfleikinn af nokkrum krafti og mark Þórs/KA kom kannski aðeins gegn gangi leiksins.

„Ég var ánægður með hvernig liðið þó brást við og kom inn í seinni hálfleikinn af því sá fyrri var ekki nógu góður. Við fengum alveg færi þá en þær líka. Það var í raun ótrúlegt að staðan hafi verið 0-0 í hálfleik því leikurinn var nokkuð opinn. En 0-0 var raunin og þess vegna var ákveðið högg að fá á sig mark. Eins og ég sagði fyrir leik hélt ég að liðið sem myndi skora fyrsta markið yrði ofan á í leiknum og sú varð raunin,“ sagði Guðni.

En hvað gekk svona illa hjá FH í fyrri hálfleik?

„Mér fannst liðið ólíkt sjálfu sér í baráttu og vilja og löngun til að vinna boltann og tæklingar. Maður sá atburði sem maður á ekki að sjá inni á vellinum þar sem einn leikmaður labbar framhjá fjórum FH-ingum, í þrígang held ég. Það er ekki boðlegt. Leikmenn voru ólíkir sjálfum sér,“ sagði Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×