„Ég vaknaði við það að sjá mann standa yfir mér í rúminu og segja að hann ætli að skera mig,“ segir hin 87 ára gamla Marjorie Perkins, íbúi í bænum Brunswick í Maine ríki í Bandaríkjunum, í samtali við News Center Maine.
Perkins segist hafa hugsað með sér að ef innbrotsþjófurinn ætli sér að skera hana þá ætli hún að sparka í hann. Því hafi hún stokkið á fætur og klætt sig hratt í skó. Þá hafi innbrotsþjófurinn ýtt henni upp að vegg.
„Ég tók stólinn minn og sló hann,“ segir Perkins. Þjófurinn hafi þá farið inn í eldhús. „Hann sagðist vera mjög svangur svo ég gaf honum kexkökur og hnetusmjör.“
Á þeim tíma hringdi Perkins í lögregluna en þjófurinn hélt á brott skömmu eftir það. Lögreglan hafði þó hendur í hári hans og segir að um 17 ára dreng sé að ræða.
Perkins vissi það sjálf enda þekkti hún drenginn frá því þegar hann sló grasið hjá henni fyrir um áratug síðan. Að hennar sögn sló hann grasið vel á sínum tíma. „Ég vona að hann fái hjálp,“ segir hún.