Viðskipti innlent

Hvetur stjórn­völd til að lengja endur­greiðslu­tíma

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekanda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekanda. Vísir/Vilhelm

Fé­lag at­vinnu­rek­enda hvetur stjórn­völd til að lengja endur­greiðslu­tíma á stuðnings­lánum til fyrir­tækja sem urðu fyrir tekju­falli í heims­far­aldrinum. Þetta kemur fram í til­kynningu.

Sam­kvæmt upp­lýsingum sem fé­lagið aflaði hjá stóru við­skipta­bönkunum þremur veittu þeir sam­tals 1.159 stuðnings­lán til fyrir­tækja sem urðu fyrir slíku tekju­falli. 248 lán­tak­endur báðu í upp­hafi ársins um við­bótar­frest til að byrja að greiða af lánunum.

„Að mati FA eru mörg lítil og meðal­stór fyrir­tæki, sem fengu stuðnings­lán, enn ekki í að­stöðu til að greiða lánin niður á tólf mánuðum og hefur fé­lagið sent fjár­mála­ráðu­neytinu erindi, þar sem hvatt er til að fjár­mála­stofnunum verði heimilað að dreifa endur­greiðslunum á lengri tíma.“

Í til­kynningu FA kemur fram að af 1159 lánum voru 979 með 100 prósent ríkis­á­byrgð en 180 með 85 prósent ríkis­á­byrgð. FA og fleiri sam­tök hafa hvatt til þess að fyrir­tækjum með stuðnings­lán, sem eru upp til hópa lítil og meðal­stór, verði gefinn lengri tími til að greiða þau til baka en upp­haf­lega var á­formað, enda dróst far­aldurinn á langinn með til­heyrandi á­hrifum á tekjur margra fyrir­tækja, að því er segir í til­kynningunni

„Fé­lagið telur á­stæðu til að beina því enn á ný til ráðu­neytisins að það heimili lána­stofnunum að lengja endur­greiðslu­tíma stuðnings­lána enn frekar til að koma til móts við þessi fyrir­tæki. Að mati fé­lagsins myndi það í ein­hverjum til­vikum stuðla að því að firra ríkis­sjóð frekara tjóni vegna greiðslu­falls, vegna þess að ýmis fyrir­tæki, sem ekki ráða við að endur­greiða lánin á næstu tólf mánuðum, myndu vel ráða við greiðslur sem dreift væri á t.d. 36 mánuði. FA vill aftur minna á að fjár­mála­stofnanir þekkja við­skipta­vini sína vel og eru í stakk búnar að meta endur­greiðslu­getu og þan­þol fyrir­tækja,“ segir í erindi FA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×