Innlent

Rifu niður lög­reglu­borða á gos­stöðvum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögregla segir að mestu vel hafa gengið á gosstöðvum í gær.
Lögregla segir að mestu vel hafa gengið á gosstöðvum í gær. Vísir/Vilhelm

Tveir hópar er­lendra ferða­manna voru til vand­ræða við eitt bíla­stæðið á gos­stöðvum við Litla-Hrút í gær. Þetta kemur fram í til­kynningu lög­reglunnar á Suður­nesjum, þar sem tekið er fram að svæðið sé opið í dag en loki klukkan 18:00.

Í til­kynningunni segir að hóparnir hafi verið til vand­ræða. Þeir hafi rifið niður lög­reglu­borða á bíla­stæði við gos­stöðvarnar og verið snúið við af lög­reglu. Ekki eru frekari upp­lýsingar um at­vikið í til­kynningu lög­reglu.

Þar segir að flestir sýni því skilning að að­gangur að inn á gossvæðið sé tak­markaður. Lög­reglu­menn, land­verðir og sjúkra­flutninga­menn verða á svæðinu í dag og þá sinna björgunar­sveitir þar út­köllum en verða ekki að stað­aldri.

1821 manns gengu Mera­dala­leið að gosinu í gær sam­kvæmt talningu. 1317 manns gengu eldri göngu­leiðir, að því er segir í tilkynningu lögreglu. 

Hæg breytileg átt á gosstöðvum í dag

Minnir lög­regla á að göngu­leiðum verður lokað kl. 18:00 að gosinu í dag, líkt og síðustu daga. Al­menningi sé skylt að hlýða fyrir­mælum lög­reglu á svæðinu og minnir hún á að um hættu­legt svæði er að ræða þar sem að­stæður geta breyst skyndi­lega.

Hæg breyti­leg átt er á gos­stöðvunum í dag og líkur á að mengun frá gosinu dreifist um Reykja­nes­skagann.

Gengur í norðan 5-10 m/s eftir há­degi og berst mengunin þá til suðurs.

Leið upp að gos­stöðvunum er það sem við­bragðs­aðilar kalla Mera­dala­leið. Ganga þarf um 18 km leið fram og til baka. Göngu­ferðin hentar því alls ekki öllum. Gangan fram og til baka getur tekið 5 til 7 klukku­stundir. Aðrar merktar göngu­leiðir eru jafn­framt opnar. Mera­dala­leið (leið E) var opnuð daginn eftir að gos hófst. Leiðin liggur til norð­austurs frá bíla­stæði í Stóra Leir­dal í átt að út­sýnis­stað á Hraun­sels – Vatns­felli.

Lög­regla varar fólk við að dvelja nærri gos­stöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífs­hættu­legar gas­tegundir safnast í dældum og geta reynst ban­vænar. Nýjar gos­sprungur geta opnast með litlum fyrir­vara og glóandi hraun getur fallið úr hraun­jaðri og hröð og skyndi­leg fram­hlaup orðið þar sem nýjar hraun­tungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.

Mælt er með því að fólk noti ryk­grímur til að forðast mengun frá gróður­eldum. Fólk fer að gos­stöðvunum á eigin á­byrgð. Þá er lögð á­hersla á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungna­sjúk­dóma gangi ekki að gosinu, eða þungaðar konur. Það er vegna hugsan­legrar gasmengunar en einnig vegna reyksins frá gróður­eldum. Þá er gangan löng og reynist mörgum erfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×