Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að rússneska varnarmálaráðuneytið fullyrði að drónanum hafi verið ætlað að valda eyðileggingu í borginni. Áður höfðu rússnesk stjórnvöld sakað Úkraínumenn um árásir tveggja dróna í borginni síðastliðinn mánudag.
Öðrum þeirra var flogið á skrifstofubyggingu í borginni en hinn hrapaði skammt frá höfuðstöðvum rússneska varnarmálaráðuneytisins. Áður hafa Rússar sagst hafa skotið niður allt að fimm dróna í Moskvu, meðal annars við alþjóðaflugvöllinn Vnukovo.
Úkraínumenn hafa ýmist þagað yfir ásökunum Rússa um meintar drónaárásir þeirra gegn höfuðborginni eða borið ásakanirnar af sér. Mikla athygli vakti þegar sprengjudróni flaug á stjórnarbyggingar í Moskvu í maí en við það tilefni sögðust Úkraínumenn ekki bera ábyrgð.