Innlent

Mikilvægt að forðast svæðið norðaustan við gíginn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ármann Höskuldsson er eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson er eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands. Arnar Halldórsson

Gígbarmurinn við Litla hrút á Reykjanesskaga er í góðu jafnvægi sem stendur, að sögn eldfjallafræðings. Lítið þurfi þó að breytast til að kvika fari að flæða til norðurs. Varað er við því að vera norðaustan við gíginn.

Gossvæðið við litla Hrút er opið í dag en verður lokað klukkan 18 líkt og síðustu daga. Af vefmyndavélum sést að gígbarmurinn er orðinn ansi fullur. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir barminn veikastan til suðurs. 

„Yfirborðið í gígnum er í ákveðnu jafnvægi og hefur verið síðastliðinn sólarhring. Það þýðir að það er jafnvægi við hraunpípurnar sem leiða kviku úr gígnum, ef þær hraunpípur fara að þrengjast eitthvað þá hækkar verulega í gígnum.“ 

Og er hætta á því?

„Það getur alltaf gerst,“ segir Ármann í samtali við fréttastofu. Það sé alltaf hætta á ferðum í kringum eldgos.

„Nú er gígurinn að hlaða upp á sig. Ef þetta flutningskerfi stíflast eitthvað þá dælir hann í kringum sig og þá kemur að því að hann fer yfir vatnaskilin og sendir kviku til norðurs.“

Hann brýnir því fyrir fólki að vera ekki norðaustan við gíginn.

„Á eiginlega öllu norður- og norðaustursvæði er mikið um metansprengingar, sem eru ansi hættulegar. Þær koma upp úr jörðinni, hvar sem er og ef þú stendur yfir einni lendir þú í blossa sem er um 600-650 gráðu heitur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×