Hópurinn sem kallar sig Þjóðarráð til verndar föðurlandsins tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi um miðnætti á íslenskum tíma. Hermennirnir sögðu öryggissveitir hafa tekið yfir stofnanir landsins og hvöttu utanaðkomandi aðila til að skipta sér ekki af.
„Þetta er afleiðing versnandi öryggisaðstæðna og slæmrar efnahags- og félagsstjórnar,“ sagði Amadou Abdramane, ofursti, í ávarpi hópsins í sjónvarpinu.
Hann sagði að búið væri að loka landamærum landsins, bæði í lofti og á landi og að útgöngubann hafi verið sett á þar til að ástandið yrði stöðugra.
Forsetinn í haldi hersins
Í gærmorgun bárust fréttir af því að meðlimir lífvarðarsveitar forsetans hefðu umkringt forsetahöllina og hefðu forsetann í haldi. Þá var ekki ljóst hver staða forsetans væri eða hvort aðrir hlutar hersins ættu þátt í uppreisninni.
Antony Blinken, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að Bazoum verði leystur úr haldi tafarlaust.
„Hvort þetta telst tæknilega sem valdarán eða ekki, get ég ekki sagt til um, það er hlutverk lögfræðinga. En þetta er greinilega tilraun til hrifsa til sín völd með valdi og brýtur í bága við stjórnarskránna,“ sagði Blinken á blaðamannafundi í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands í nótt.
Valdaránið er það sjöunda sem á sér stað í Afríku frá árinu 2020.