Viðskipti innlent

Birna með 56,6 milljónir króna í starfs­loka­samning

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birna Einarsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka. VÍSIR/VILHELM

Ráðningar­samningur Birnu Einars­dóttur, banka­stjóra Ís­lands­banka, kvað á um tólf mánaða upp­sagnar­frest og er gjald­færsla vegna launa og hlunninda 56,6 milljónir króna. Þetta kemur fram í svörum stjórnar bankans til hlut­hafa vegna fyrir­hugaðs hlut­hafa­fundar sem fer fram þann 28. júlí næst­komandi.

Í svörunum sem birt eru á vef bankans segir að samningur sem gerður var við Birnu um starfs­lok sé í fullu sam­ræmi við ráðningar­samning hennar. Hann rúmist innan starfs­kjara­stefnu bankans sem sam­þykkt var á síðasta aðal­fundi og gildandi lög um fjár­mála­fyrir­tæki.

Há­værar kröfur voru um að starfs­loka­samningur Birnu yrði birtur strax og hún sagði upp störfum, í upp­hafi júlí­mánaðar. Við til­efnið sagði stjórnar­for­maður bankans að stjórnin hefði ekki tekið af­stöðu til málsins en Birna sagði upp störfum sem banka­stjóri þann 28. júní síðast­liðinn.

„Ráðningar­samningurinn kvað á um tólf mánaða upp­sagnar­frest og er gjald­færsla vegna launa og hlunninda 56,6 milljónir króna. Fara þær greiðslur fram mánaðar­lega yfir tólf mánaða tíma­bil í formi launa­greiðslna,“ segir í svörum stjórnar bankans. Til saman­burðar fékk Höskuldur Ólafs­son, þá­verandi banka­stjóri Arion banka 150 milljónir króna þegar hann sagði upp störfum í apríl árið 2019.

Í svörum stjórnar Ís­lands­banka til hlut­hafa er jafn­framt tekið fram að Birna haldi auk þess réttindum varðandi or­lof og líf­eyris­sjóðs­greiðslur á tólf mánaða tíma­bili. Önnur á­kvæði eru jafn­framt stöðluð og í sam­ræmi við ráðningar­samning og við­eig­andi kjara­samninga, að því er segir á vef bankans.


Tengdar fréttir

Birna lætur af störfum hjá Ís­lands­banka

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hefur ákveðið að stíga til hliðar „með hagsmuni bankans að leiðarljósi“. Segist hún gera það til að „ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×