Viðskipti innlent

Ný ak­braut sem heitir Mike

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Akbrautin fékk nafnið Mike.
Akbrautin fékk nafnið Mike. Isavia

Ný akbraut var formlega tekin í notkun á Keflvíkurflugvelli í dag. Brautin er fyrsta viðbót Isavia við flugbrautarkerfið á vellinum en allar aðrar breytingar á því hafa verið framkvæmdar af Bandaríkjaher og NATO. 

Í tilkynningu frá Isavia segir að brautin hafi fengið nafnið Mike og að hún tengi saman flughlað flugstöðvarinnar og flugbraut. 

Þá segir að akbrautin muni auka flæði í komum og brottförum, flugvélar muni komast fyrr inn á flugbrautir og út af þeim. „Akbrautin mun minnka biðtíma flugvéla að komast af akbraut eða komast í loftið á háannatíma og þar af leiðandi minnka kolefnisspor flugvéla á jörðu, sem er eitt af markmiðum flugvallarins,“ segir í tilkynningu. 

Gerð akbrautarinnar kostaði 4 milljarða króna. Brautin er 1200 metra löng og 35 metra breið. „Til samanburðar myndi malbikið duga til að malbika 35 fótboltavelli,“ segir einnig í tilkynningunni.

„Viðbót þessi við flugbrautarkerfi Keflavíkurflugvallar er stór áfangi í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og liður í að gera flugvöllinn samkeppnishæfari. Keflavíkurflugvöllur er í harðri alþjóðlegri samkeppni og við erum stöðugt að vinna að því að styrkja rekstrargrundvöll flugvallarins, bæta aðstöðuna fyrir flugfélögin og bæta upplifun farþega, “ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×