Neytendur

Nýjar verð­bólgu­tölur „mjög góð tíðindi“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er hagfræðingur hjá Landsbankanum.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er hagfræðingur hjá Landsbankanum. landsbankinn

Hagfræðingur segir uppfærðar verðbólgutölur Hagstofunnar gefa góð fyrirheit og að stýrivaxtahækkanir séu að bera árangur. Ársverðbólga í júlí mælist minni en sérfræðingar höfðu spáð.

Samkvæmt uppfærðum tölum Hagstofunnar fyrir júlímánuð hækkaði vísitala neysluverðs um 0,03 prósent á milli mánaða. Verðbólga á ársgrundvelli fer því úr 8,9 prósentum í 7,6 prósent. Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir hjöðnunina meiri en spáð hafði verið.

„Við spáðum fyrst að hún færi í 7,9 prósent, en vorum reyndar búin að lækka þá spá í 7,7. En þetta eru í raun bara mjög góð tíðindi,“ segir Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Á miðvikudag var greint frá því að samdráttur í húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu kæmi líklega til með að draga verðbólguna niður fyrir spár bankanna. Sú virðist hafa verið raunin.

„Við sjáum að framlag húsnæðis til verðbólgunnar er að dragast saman, og líka framlag innlendrar þjónustu, þannig að það virðist bara vera að draga aðeins úr eftirspurnarþrýstingnum.“

Er þetta merki um að stýrivaxtahækkanir séu að bera árangur?

„Já, þetta er merki um það og það voru einmitt komnar fram vísbendingar um það áður. Við sjáum að kortaveltan hefur dregist saman þrjá mánuði í röð, sem sýnir einmitt minni eftirspurnarþrýsting, og húsnæðisverð lækkaði í júní.“

Samverkandi þættir

Uppfærðar verðbólgutölur gefi góð fyrirheit um áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar. Hið sama eigi við um framtíðarákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabankans um stýrivexti.

„En þó er ekkert útilokað að vextir haldi eitthvað áfram að hækka,“ segir Hildur Margrét. 

Fleira en vaxtahækkanir spili þó inn í hjöðnunina. Til að mynda hafi 12 ára samfelldri kaupmáttaraukningu lokið í júní á síðasta ári.

„Svo höfum við talað um að fólk sennilega átt einhvern uppsafnaðan sparnað eftir Covid, og það er alveg hugsanlegt að fólk sé bara búið að ganga dálítið á þann sparnað og hafi ekki það svigrúm núna.“


Tengdar fréttir

Verð­bólgan komin niður í 7,6 prósent

Ársverðbólga mælist nú 7,6 prósent og minnkar töluvert frá júnímánuði þar sem hún mældist 8.9 prósent. Verðbólgan mælist þó nokkuð minni en sérfræðingar höfðu spáð.

Kólnun á hús­næðis­markaði dragi verð­bólgu niður fyrir spár

Hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir að samdráttur í íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu geti orðið til þess að verðbólga hjaðni hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Þó megi búast við því að Seðlabankinn hækki stýrivexti í næsta mánuði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×