Erlent

Hafa enn ekki fundið ljónið

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill viðbúnaður er á svæðinu en engin ummerki um ljónið hafa fundist enn.
Mikill viðbúnaður er á svæðinu en engin ummerki um ljónið hafa fundist enn. EPA/STRINGER

Lögreglan í Berlín og Brandenburg hefur enn ekki fundið ljónið sem talið er að gangi lausum hala í suðurhluta borgarinnar og úthverfum. Til stendur að auka viðbúnað og umfang leitarinnar í dag.

Berliner Zeitung hefur eftir talsmanni lögreglunnar að hvorki tangur né tetur af ljóninu hafi fundist í nótt og er enn leitað í suðurhluta Berlínar, á svæðinu þar sem ljónið sást fyrst.

Dýr sem talið er vera ljónynja var fangað á myndband í fyrrakvöld og vitni sögðust hafa séð ljón elta uppi og drepa villisvín. Enginn á svæðinu hefur stigið fram og sagt að hann hafi týnt ljóni en búið er að leita til allra þeirra sem vitað er að eigi ljón, eins og dýragarða og annarra.

Notast er við þyrlur með hitamyndavélar til að leita að dýrinu og þá eru veiðimenn vopnaðir deyfibyssum og dýralæknar tilbúnir til að fanga það. Alls hafa rúmlega hundrað lögregluþjónar, dýralæknar og veiðimenn hafa komið að leitinni.

Sérfræðingur sem blaðamenn ræddu við sagðist fullur efasemda um að ljón gengi laust þar sem engin ummerki hefðu séð. Ljónynja ætti að skilja eftir sig spor og önnur ummerki.


Tengdar fréttir

Ljón leikur lausum hala í Berlín

Lögreglan Í Berlín hefur beðið íbúa í úthverfum borgarinnar um að halda sig heima eftir að stórt kattardýr, sem talið er vera ljónynja, sást á svæðinu í gærkvöldi. Þá eru gæludýraeigendur beðnir um að halda dýrum sínum innandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×