Viðskipti innlent

Viaplay segir upp 25 prósents starfs­fólks

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Viaplay hóf innreið á íslenskan markað í apríl árið 2021. 
Viaplay hóf innreið á íslenskan markað í apríl árið 2021.  Getty/Jakub Porzycki

Sænska streymis­veitan Viaplay hefur sagt upp 25 prósent af starfs­fólki sínu. Er það gert til að bregðast við rekstra­r­örðug­leikum en fyrir­tækið sendi frá sér af­komu­við­vörun í síðasta mánuði þar sem gert er ráð fyrir því að fé­lagið verði rekið í tapi næstu árin.

Jør­­gen Madsen Lindemann, fram­kvæmdar­stjóri fé­lagsins, segir að fé­lagið hafi orðið að bregðast við rekstrar­erfið­leikum með niður­skurði til að tryggja fram­tíð fé­lagsins. Þetta þýðir að rúm­lega 450 starfs­mönnum fyrir­tækisins hefur verið sagt upp þegar í stað, að því er fram kemur í um­fjöllun Deadline.

Þar er haft eftir Lindemann að fé­lagið hyggist ein­beita sér að nor­ræna markaðnum auk þess hollenska og minnka skuld­bindingar sínar í Bret­landi og í Banda­ríkjunum. Þá muni dag­skrár­gerð streymis­veitunnar í auknum mæli fara fram á norður­löndum.

Áður hefur Viaplay gert víð­tækan sams­starfs­samning við Sýn um sölu Viaplay með vörum Voda­fone og Stöðvar 2 auk þess sem Stöð 2 Sport mun sjá um fram­leiðslu á allri inn­lendri dag­skrár­gerð á í­þrótta­efni Viaplay, frá og með ágúst næst­komandi.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×