Tobia Billstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir engan starfsmann sendiráðsins hafa sakað í árásinni og gagnrýndi yfirvöld í Írak fyrir að bregðast skuldbindingum sínum varðandi það að verja sendiráð annarra ríkja.
„Það sem gerðist er algerlega óásættanlegt og ríkisstjórnin fordæmir stranglega þessar árásir,“ hefur Reuters eftir ráðherranum. Hann sagði að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi koma mótmælum fram til yfirvalda í Írak með formlegum hætti.
Í frétt SVT segir að sendiráð Finnlands, sem sé við hlið sendiráðs Svíþjóðar, hafi einnig verið rýmt. Starfsmenn beggja sendiráðanna voru fluttir á brott áður en ráðist var á sendiráðið.
Utanríkisráðuneyti Íraks hefur gefið út tilkynningu þar sem árásin er fordæmt. Ekkert segir um af hverju hún var ekki stöðvuð fyrr en í morgun. Þá segir í tilkynningunni að þeir sem tóku þátt í árásinni verði dregnir til ábyrgðar.
Mennirnir ruddust inn í sendiráðið eftir að mjög áhrifamikill írakskur klerkur sjíta sem heitir Muqtada Sadr, kallaði eftir því að brugðist yrði við hinum fyrirhuguðu mótmælum í Svíþjóð í dag. Sadr á hundruð þúsunda fylgjenda og hefur áður boðað til umfangsmikilla mótmæla, eins og þegar stuðningsmenn hans ruddust inn á hið svokallaða „Græna svæði“ í Bagdad síðasta sumar.
Þá kom til átaka milli mótmælenda og öryggissveita.
Sjá einnig: Fimmtán látnir í átökum í Bagdad
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðist er inn í sendiráð Svía í Bagdad en það var einnig gert í síðasta mánuði. Þá kveikti írakskur maður í Kóraninum fyrir utan mosku í Stokkhólmi. Kóranbrennur hafa verið nokkuð tíðar í Svíþjóð og hafa þær verið harðlega gagnrýndar víðsvegar í ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.
Þær hafa meðal annars komið niður á umsókn Svía í Atlantshafsbandalagið.