Innlent

„Auð­veldasta leiðin og eina leiðin er til suðurs“

Oddur Ævar Gunnarsson og Kristján Már Unnarsson skrifa
Magnús Tumi Guðmundsson er viss um að ekki verði breytingar á rennsli hraunsins við Litla Hrút.
Magnús Tumi Guðmundsson er viss um að ekki verði breytingar á rennsli hraunsins við Litla Hrút.

Magnús Tumi Guð­munds­son, prófessor í jarð­eðlis­fræði, segir virkni eld­gossins við Litla-Hrút vera svipaða í dag eins og í gær. Hann segir það afar ó­lík­legt að kviku­gangurinn lengist eða að sprungur opnist á nýjum stöðum, til að mynda norðar við Keili. Hraunið muni renna á­fram til suðurs.

„Það virðist nú bara vera mjög svipað í dag eins og í gær. Við sjáum það bara á vef­mynda­vélunum. Það eru engar mælingar komnar í dag en jú, þetta er svipað.“

Myndast ekki nýtt gat þegar blaðra springur

Einn mögu­leiki sem hefur verið í um­ræðunni er sá hvort að kviku­gangurinn geti lengst og opnast nýjar sprungur, jafn­vel undir Keili eða norðan við Keili, hvernig meturðu þær líkur?

„Ja, það er nú nokkuð sam­dóma álit þeirra sem eru að skoða þessi mál að þetta sé nú bara mjög ó­lík­legt úr því sem komið er. Það er engin hreyfing, engin af­lögun sem mælist á þessu svæði og svo er náttúru­lega bara þetta að þegar blaðra springur þá myndast ekki nýtt gat vegna þess að þrýstingurinn hefur lækkað. Það fer bara út um það gatið þar sem það opnaðist og það er lang lík­legast að það haldi á­fram á þessum sama stað.“

Þannig segir Magnús Tumi að lang­mestar líkur séu á því að sami gígur verði virkur á meðan þetta gos vari. Ekki sé þó hægt að úti­loka hitt en Magnús segir að það væri ó­venju­legt úr því sem komið er.

Nú mun þessi gígur stækka og stækka landið þarna í kring. Eru líkur á því að það geti hraun farið að renna norður í átt að Reykja­nes­braut?

„Til þess að það gerist þarf þetta að vera mjög lang­vinnt. Ef þetta verður eitt­hvað miklu miklu lengra en kannski flest gos, þá er ekki hægt að úti­loka þann mögu­leika. En til þess þarf þetta að fara í gegnum ýmsa fasa, byggja sig upp áður en það fer að renna þarna og fylla upp í heil­mikið. Auð­veldasta leiðin og eina leiðin er til suðurs. Það þarf mikið að breytast áður en það fer að fara í hina áttina. Þannig að við eigum alveg að sofa á nóttinni yfir þeim mögu­leika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×