Viðskipti innlent

Fréttirnar séu „mest­megnis slúður og hrein ó­sannindi“

Eiður Þór Árnason og Ólafur Björn Sverrisson skrifa
Helgi Magnússon, fjárfestir og eigandi Hofgarða ehf.
Helgi Magnússon, fjárfestir og eigandi Hofgarða ehf. Vísir/Vilhelm

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Hofgarða og stærsti kröfuhafinn í þrotabú Torgs sem gaf meðal annars út Fréttablaðið, gerir alvarlegar athugasemdir við frétt Mbl.is um skipti í þrotabúinu og segir hana í stórum dráttum ranga og villandi.

Skiptafundur fór fram í gær en í frétt Mbl.is sem birtist í morgun er meðal annars fullyrt að Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Torgs ehf. hafi hafnað tæplega milljarða kröfu Helga í þrotabúið. Þá er haft eftir heimildum að Óskar meti nú hvort ástæða þyki til að rifta samningi sem gerður var um kaup Hofgarða á eignum tengdum DV.is af Torgi í mars 2021.

Helgi segir báðar fullyrðingar rangar í samtali við Vísi. Hann var áður stærsti eigandi og jafnframt stjórnarformaður Torgs. Útgáfa Fréttablaðsins var skyndilega stöðvuð í lok mars og var Torg úrskurðað gjaldþrota nokkrum dögum síðar. Torg rak sömuleiðis sjónvarpsstöðina Hringbraut, Fréttablaðið.is og DV.is en rekstur DV.is og vefs Hringbrautar hefur haldið áfram eftir gjaldþrotið. Hofgarðar ehf. keyptu vörumerki og heimasíður Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar af Torgi árið 2021 fyrir 480 milljónir króna.

Rangt að fullyrða að kröfunni hafi verið hafnað en ólíklegt að eitthvað fáist upp í hana

Þórhallur Bermann, lögmaður á LEX lögmannstofu sem kemur ásamt Óskari að skiptum þrotabúsins, segir um fullyrðingar í frétt Mbl.is að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort eitt eða annað sé mögulega riftanlegt. Allt of snemmt sé að segja til um það á þessum tímapunkti. 

„Það er kannski aðeins verið að færa í stílinn og aðeins verið að oftúlka. Það er þannig að við gjaldþrotaskipti þá sæta ráðstafanir á eignum skoðun, meðal annars með hliðsjón af riftunarreglum gjaldþrotalaga og það var bara gert með almennum hætti grein fyrir því og þá meðal annars getið um þessa sölu. 

Það hefur bara verið til skoðunar að rýna hvernig það fór fram en engin afstaða og engin ákvörðun verið tekin um það að fara í einhverjar aðgerðir eða neitt þess háttar. Það var bara verið gera grein fyrir með almennum hætti þessum helstu ráðstöfunum sem eru skoðaðar í því sambandi,“ segir Þórhallur.

Þá sé rangt að fullyrða að kröfu Hofgarða í þrotabúið hafi verið hafnað. Um sé að ræða almenna kröfu og ekki sé tekin afstaða til almennra krafna við skiptameðferðina því talið sé fullvíst að ekki muni fást neitt upp í slíkar kröfur.

Segir skrifin hrein ósannindi

„Skrif mbl.is í dag um skiptafund í búi Torgs er mestmegnis slúður og hrein ósannindi. Sumt af því sem kemur þar fram er beinlínis atvinnurógur,“ segir Helgi Magnússon við Vísi. Blaðamaður miðilsins hafi ólíkt honum sjálfum ekki verið viðstaddur skiptafundinn í gær þar sem skiptastjóri hafi aðeins heimilað fulltrúum kröfuhafa að sitja fundinn.

„Ýmsar rangfærslur birtast í skrifum mbl.is um þetta mál og eru sumar þeirra alvarlegar. Eins og til dæmis að skiptastjóri hafi hafnað kröfu Hofgarða að fjárhæð 987 milljónir króna. Það er rangt. Sú krafa er athugasemdalaust á lista yfir almennar kröfur sem lagður var fram á fundinum. Kröfu Hofgarða var ekki hafnað, þetta vita þeir sem sátu fundinn.“

Torg var til húsa á Kalkofnsvegi og var þar með skrifstofur Fréttablaðiðsins, DV.is og Hringbrautar. Vísir/Vilhelm

Helgi segir að alvarlegasta rangfærslan sem fram komi í umræddri frétt sé að til skoðunar sé að rifta kaupum Hofgarða á vörumerkjum og réttindum Torgs samkvæmt samningi sem gerður var í mars 2021.

„Kaupin voru þá greidd að fullu á háu verði. Skiptastjóri fór ítarlega yfir rekstur búsins á fundinum í gær allt frá upphafi og gat um helstu aðgerðir og atburði sem varða uppgjör búsins. Þar var ekkert minnst á umrædda riftun sem ranghermt var á mbl.is.“ 

Helgi með langstærstu kröfuna í búið

Greint var frá því um helgina að kröfur í þrotabú Torgs nemi alls tæplega einum og hálfum milljarði króna og er langsamlega stærsta krafan frá Hofgörðum, félagi Helga. Þetta má lesa úr kröfuskrá þrotabúsins.

Forgangskröfur nema alls tæplega 319 milljónum króna, þar af eru 232 milljónir samþykktar. Meðal forgangskrafna eru tvær kröfur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna upp á 17,5 milljónir samanlagt. Þar af voru tæplega 7 milljónir samþykktar.

Aðrar samþykktar kröfur eru litlar kröfur frá lífeyrissjóðum og launakröfur starfsmanna. Hæst þeirra er frá Garðari Erni Úlfarssyni, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins, en hann fer fram á um 10,8 milljónir króna. Skiptastjóri samþykkti um 7,8 milljóna króna kröfu frá honum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri fer fram á um 8,1 milljón króna en skiptastjóri samþykkti 4,2 milljónir. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir sem stýrði sérblöðum fer fram á 6,2 milljónir króna og Björn J. Þorláksson 5,2 milljónir. Skiptastjóri samþykkir kröfur þeirra beggja upp að 4,1 milljón.

Fréttin hefur verið uppfærð með svörum frá LEX. 


Tengdar fréttir

Launa­kröfur upp á allt að tíu milljónir og Helgi vill milljarð

Kröfur í þrotabú Torgs ehf., sem gaf út Fréttablaðið sáluga og fleiri miðla, nema tæplega einum og hálfum milljarði króna. Langsamlega stærsta krafan er krafa frá Helga Magnússyni, eiganda Torgs, upp á rétt tæpan milljarð. Samþykktar kröfur upp á 235 milljónir samanstanda nánast alfarið af forgangskröfum starfsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×