Innlent

Vilja vernda börn og ung­menni gegn við­skipta­boðum fyrir nikó­tín­vörur

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir ekki fleiri sambærileg mál til skoðunar. 
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir ekki fleiri sambærileg mál til skoðunar.  Vísir/Egill

Fjölmiðlanefnd segir Ríkisútvarpið hafa gerst brotleg við nýbreytt fjölmiðlalög með því að birta auglýsingar verslunarkeðjunnar Svens sem selur einungis nikótínpúða. Framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar segir markmið breytinganna meðal annars hafa verið að vernda börn og ungmenni.

Árið 2022 var fjölmiðlalögum breytt á þann veg að bann var lagt á auglýsingar níkótínvara af öllum toga. Samkvæmt lögunum er ekki bannað að auglýsa sölustaði nikótínvara aðeins vörurnar sjálfar. Það nýtti verslanakeðjan Svens sér vel. Í mars síðastliðnum áframsendi Neytendastofa Fjölmiðlanefnd ábendingar um að Ríkisútvarpið hefði birt auglýsingar fyrir nikótínpúða, ekki eingöngu verslunina Svens. Niðurstaða Fjölmiðlanefndar er að RÚV hafi farið yfir mörkin og auglýst vöruna sjálfa.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir þetta í fyrsta sinn sem reynt er á nýtt ákvæði laganna. „Með það að markmiði meðal annars að vernda börn og ungmenni. Ástæðan fyrir því að þetta er álit er að það verið að reyna á þetta í fyrsta skipti og það er svona verið að sýna hvar þessi mörk liggja,“ segir Elfa. Notkun nikótínpúða sé orðin nokkuð útbreidd meðal ungmenna í grunnskólum og framhaldsskólum.

„Það kemur fram í greinargerðinni með lögunum að það sé verið að reyna vernda börn og ungmenni gegn þessum viðskiptaboðum fyrir nikótínvörum í fjölmiðlum og þannig sporna gegn aukinni notkun.“

Efla segir ekki fleiri sambærileg mál til skoðunar. „Álitið er skrifað þannig að það ætti að vera aðgengilegt fyrir almenning og aðra fjölmiðla og þá sem eru með slíkar auglýsingar þannig að þau geti séð hvar þessi mörk liggja,“ segir hún. Fjölmiðlanefnd féll frá sektarákvörðun í málinu þar sem RÚV var að brjóta á nýju ákvæði í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×