Innlent

Ekki síðasti dagurinn til að sækja um framlengingu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hægt er að sækja um framlenginguna fram í september.
Hægt er að sækja um framlenginguna fram í september. Vísir/Vilhelm

Búið er að framlengja almenna heimild til að nýta séreignarsparnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða til ráðstöfunar upp í höfuðstól láns sem tekið var vegna kaupanna. Heimildin var framlengd til og með 31. desember 2024 en sækja þarf um hana fyrir lok september.

Fólk sem vill framlengja ráðstöfun séreignarsparnaðarins þarf að óska eftir áframhaldandi ráðstöfun. Til þess að gera það þarf að skrá sig inn á leidretting.is og óska eftir því að framlengja gildistíma ráðstöfunar. 

Upphaflega var greint frá því að fresturinn væri að renna út í dag en svo virðist vera sem einhver ruglingur hafi verið þar á. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vakti til dæmis athygli á því fyrr í dag á Facebook-síðu sinni að lokadagurinn væri í dag. 

Ruglingurinn skilaði sér alla leið í fjármálaráðuneytið. Bjarni hefur nú uppfært færsluna.Skjáskot

Hann hefur nú uppfært færsluna og segir nú að fresturinn sé fram í lok september á þessu ári.

Ástæðan fyrir ruglingnum er líklega sú að á vefsíðu Skattsins segir að ef gildistími umsókna sé ekki framlengdur muni umsóknir falla úr gildi frá og með morgundeginum. 

Þar segir þó einnig að frestur til að samþykkja áframhaldandi ráðstöfun inn á lán sé til og með 30. september 2023. Eftir það gildi umsóknir aðeins frá þeim mánuði þegar þær berast.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×