Fram kemur í tilkynningu frá OR að við staðarval á tillögunum hafi verið horft til þess að áhrif á umhverfi, náttúru og samfélag yrðu sem minnst. „Horft var til fyrirliggjandi gagna um vindskilyrði og nálægðar við röskuð svæði, flutningsvirki, starfssvæði OR samstæðunnar og svæða þar sem sjáanleg mannvirki eru fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Verði ákvörðun tekin um að halda áfram undirbúningsvinnu vegna virkjunarkostana verður ráðist í rannsóknir á vindskilyrðum með mastri sem og á mikilvægum umhverfisþáttum eins og fuglalíf og sjónræn áhrif. Það verði gert í samráði við sérfræðinga og hagaðila.
OR lagði fram tillögur um þrjá vindorkugarða, tveir þeirra í Ölfusi en einn við Lyklafell í Mosfellsbæ.
Tillögur OR eru eftirfarandi:
50-150 MW Vindorkugarður við Lambafell í Ölfusi.
50-108 MW Vindorkugarður við Dyraveg í Ölfusi.
50-144 MW Vindorkugarður við Lyklafell í Mosfellsbæ.
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá OR, segir í tilkynningunni að vinnsla á endurnýjanlegri orku skipti lykilmáli þegar kemur að baráttunni við loftslagsvána. Orkuskiptin séu þýðingarmikil til að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, þau kalli á endurnýjanlega raforku eins og vindorku.
„Í samræmi við eigendastefnu OR sem er orku- og veitufyrirtæki í almannaeigu berum við samfélagslega ábyrgð á orkuöflun. Við leggjum áherslu á að standa faglega að þessu verkefni og að vinna í sátt við umhverfi, náttúru og samfélag, “ er haft eftir Heru.

OR hefur nú þegar kynnt hlutaðeigandi bæjar- og sveitarstjórum, sem og landeigendum fyrir þessum vindorkukostum sem nú eru til skoðunar. Verkefnið mun verða kynnt nánar næsta haust, meðal annars í nágrannasveitarfélögum.