Innlent

Hús­næðis­að­gerðir sveitar­fé­laga fá slæma út­reið

Eiður Þór Árnason skrifar
Erfiðlega hefur gengið að byggja húsnæði í samræmi við mannfjöldaþróun.
Erfiðlega hefur gengið að byggja húsnæði í samræmi við mannfjöldaþróun. Vísir/Arnar

Einungis ellefu prósent telja Reykjavíkurborg hafa staðið sig vel þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis en 63,4 prósent fremur eða mjög illa. Þegar sjónum er beint að öðrum sveitarfélögum segja 9,4 prósent þau hafa staðið sig vel í húsnæðismálum en 45,5 prósent illa.

Þetta er niðurstaða könnunar Maskínu um viðhorf til eignarhalds og uppbyggingar á húsnæðismarkaði sem unnin var fyrir Samtök leigjenda á Íslandi. Þegar svarendur voru spurðir sérstaklega um frammistöðu Dag B. Eggertssonar borgarstjóra í húsnæðismálum sögðust 65,6 prósent hann hafa staðið sig illa og 10,6 prósent mjög eða fremur vel. 23,8% sögðu Dag hafa staðið sig hvorki vel né illa.

63,4% svarenda telja Reykjavíkurborg hafa staðið sig fremur eða mjög illa í húsnæðismálum. Maskína

Í könnuninni var meðal annars spurt hversu vel eða illa fólki finnist Dagur B. Eggertsson hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála og hversu vel eða illa þeim finnst Reykjavíkurborg hafa staðið sig í sama málaflokki.

65,6 prósent telja Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa staðið sig illa þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis í borginni. Maskína

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, hóp fólks á netinu sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru alls staðar að af landinu og voru svör vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun til að þau endurspegli betur þjóðina. Könnunin fór fram dagana 19. til 22. júní 2023 og voru svarendur 966 talsins.

45,5 prósent svarenda sögðu að önnur sveitarfélög en Reykjavík hafi staðið sig fremur eða mjög illa í húsnæðismálum. Maskína

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×