Erlent

Fundu lík á svæðinu þar sem Juli­an Sands hefur verið leitað

Atli Ísleifsson skrifar
Julian Sands á frumsýningu myndar á kvikmyndahátíð í Feneyjum árið 2019.
Julian Sands á frumsýningu myndar á kvikmyndahátíð í Feneyjum árið 2019. AP

Göngumenn í San Bernardino-sýslu í suðurhluta Kaliforníu fundu á laugardag lík á því svæði þar sem breska leikarans Julian Sands hefur verið leitað síðustu mánuði. Talsmaður lögreglu segir að reiknað sé með að vinnu við að bera kennsl á líkið muni ljúka í þessari viku.

Lögregluyfirvöld í San Bernardino greindu frá tíðindunum um helgina. Fréttir bárust af því um miðjan janúar síðastliðinn að hins 65 ára Sands væri saknað. Hann hafði þá verið á göngu í slæmu veðri á Baldy Bowl-svæðinu í San Gabriel-fjöllunum, norður af Los Angeles.

Sands er þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við The Killing Fields, A Room with a View, 24, Boxing Helena, Leaving Las Vegas,Smallville og The Girl with the Dragon Tattoo.

Sands hafði búið í Los Angeles frá árinu 2020 og lék síðast í dramamyndinni Benediction sem skartaði einnig þeim Jack Lowden og Peter Capaldi í helstu hlutverkum. Sands fór með hlutverk blóðföður Súperman í Smallville-þáttunum og Vladimir Bierko í 24.

Mikil leit hefur staðið yfir síðustu mánuði að Sands þar sem meðal annars var notast við dróna, þyrlu og leitarhunda.


Tengdar fréttir

Bíll Julian Sands er fundinn

Búið er að finna bíl breska leikarans Julians Sands í San Gabriel-fjöllunum, norður af Los Angeles. Leikarinn hélt í fjallgöngu á Baldy Bowl-svæðinu í síðustu viku og hefur hans verið saknað síðan á föstudag.

Leita að öðrum manni á sama fjalli

Björgunarsveitir í Kaliforníu eru byrjaðar að leita að öðrum göngumanni sem týndist á sama fjalli og breski leikarinn Julian Sands týndist á. Sands hefur verið týndur í ellefu daga og nú er 75 ára gamall maður sem heitir Jin Chung einnig týndur. Hann sást síðast á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×