Þá fjöllum við um opinn fund atvinnuveganefndar Alþingis sem fór fram í dag, þar sem matvælaráðherra sat fyrir svörum vegna ákvörðunar sinnar um að fresta hvalveiðum þar til í haust. Þingmenn hafa margir lýst sig andvíga ákvörðuninni og hvatt ráðherra til að draga hana til baka.
Við ræðum einnig við verkefnastjóra hjá Fjölskylduhjálp, en um fimm hundruð manns mæta í hverri viku til samtakanna í Reykjanesbæ til að fá matargjafir, en stór hluti þess hóps eru hælisleitendur. Samtökin kalla eftir auknum stuðningi ríkisins við það fólk sem tekið er á móti hingað til lands.
Eins fjöllum við um strandveiðar í Grímsey, hittum íslenskan leikara sem ætlar að umbreyta líkama sínum fyrir hlutverk í erlendu sjónvarpsefni og skoðum sjósundmálin í beinni útsendingu frá Nauthólsvík.
Þetta og fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 í beinni útsendingu klukkan 18:30 á Stöð 2 og Bylgjunni.