Körfubolti

Chris Paul verður sam­herji Steph Curry hjá Warri­ors

Smári Jökull Jónsson skrifar
Chris Paul lék með Phoenix Suns á nýafstaðinni leiktíð en var skipt til Washington Wizards á dögunum. Hann virðist hins vegar ekki ætla að stoppa lengi þar.
Chris Paul lék með Phoenix Suns á nýafstaðinni leiktíð en var skipt til Washington Wizards á dögunum. Hann virðist hins vegar ekki ætla að stoppa lengi þar. Vísir/Getty

Chris Paul er við það að ganga til liðs við Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik og verður þar með samherji Steph Curry.

Chris Paul var á dögunum skipt til Washington Wizards í NBA-deildinni en hann hefur leikið með Phoenix Suns undanfarin tímabil. Strax í kjölfarið var rætt um að Paul myndi ekki staldra lengi við í höfuðborginni og það virðist vera að sannreynast.

Adam Wojnarowski, einn helsti NBA-sérfræðingurinn vestanhafs, greinir frá því á Twitter nú í kvöld að Paul sé við það að ganga til liðs við Golden State Warriors í skiptum fyrir Jordan Poole og nokkra valrétti í framtíðar nýliðavali.

Paul ætlar væntanlega að freista þess að vinna sinn fyrsta NBA-titil á ferlinum en lið Warriors hefur verið stórveldi í deildinni á undanförnum árum enda leikur einn besti leikmaður deildarinnar, Steph Curry, með liðinu.

Jordan Poole hefur verið lykilmaður í liði Warriors síðan hann samdi við liðið árið 2019 og átti sitt besta tímabil nú í ár og skoraði rúmlega 20 stig að meðaltali í leik. Lið Washington komst ekki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á nýliðnu tímabili en liðið skipti stjörnuleikmanni sínum Bradley Beal til Phoenix á dögunum og fékk Chris Paul í staðinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×