Fimm voru um borð þegar samband rofnaði við kafbátinn á sunnudag. Þá var verið að sigla honum í átt að flaki skipsins Titanic undan ströndum Nýfundnalands. Áhöfn fylgdarskips kafbátsins hætti að ná sambandi við hann um einni klukkustund og 45 mínútum eftir að köfunarferðin hófst. Við hefðbundnar aðstæður tekur á þrjá tíma að kafa að flaki Titanic.
Leitin hefur afmarkast nokkuð eftir að mælitæki námu málmhljóð á þriðjudagskvöld, sem vakti vonir um að fólkið væri á lífi.
Súrefnisbirgðir Titan verða hins vegar á þrotum innan tíðar. Sérfræðingar telja að við bestu aðstæður gæti súrefni kafbátsins dugað fram að hádegi í dag, miðað við eðliega súrefnisneyslu. Sérfræðingar segja að birgðirnar gætu dugað lengur.
This is why the #Oceangate Titan submersible search is so difficult. The depth of the ocean is staggering pic.twitter.com/Jiz6dCtDGg
— Tom Munns (@TomMunns1) June 21, 2023
Verulega hefur dregið úr líkum á því að það takist að bjarga fimmmenningunum en sérfræðingar segja að jafnvel þótt kafbáturinn finnist þyrfti gríðarlegt átak til að ná honum upp á yfirborðið.
Ef leiðangurinn náði að flaki Titanic, liggur það á um 3.800 metra dýpi, en aðeins fáeinir fjarstýrðir kafbátar geta kafað svo djúpt. Þá þyrftu aðstæður til björgunar að vera þannig að leitarmenn hefðu góða sýn á Titan, hverja þá tálma sem væru mögulega í veginum og gætu komið vírum á kafbátinn til að draga hann upp.
AP fréttaveitan segir sjóher Bandaríkjanna vera að senda sérstakan kafbát á svæðið sem hannaður er til að sækja allt að 27 tonna muni á hafsbotn. Titan er rétt rúm níu tonn að þyngd.
Rush er einn af þeim fimm sem týndust með kafbátnum. Einnig eru breski auðjöfurinn Hamish Harding um borð, auk feðganna Shahzada Dawood og Suleman, sem eru úr einni auðugustu fjölskyldu Pakistan og hinn 73 ára gamli Paul-Henry Nargeolet, sem er franskur landkönnuður.
Minnst 46 manns hafa áður kafað að flaki Titanic um borð í Titan á undanförnum árum.