Erlent

Ölvaður flug­maður hand­tekinn í Skot­landi

Máni Snær Þorláksson skrifar
Flugmaður flugfélagsins Delta var handtekinn i Skotlandi fyrir helgi vegna gruns um ölvun.
Flugmaður flugfélagsins Delta var handtekinn i Skotlandi fyrir helgi vegna gruns um ölvun. EPA/Michael Reynolds

Flugmaður sem átti að fljúga vél flugfélagsins Delta frá Edinborg í Skotlandi til bandarísku borgarinnar New York var handtekinn vegna gruns um að vera ölvaður. Fresta þurfti fluginu þar sem flugmaðurinn var handtekinn þegar rúmur hálftími var í flugtak.

Lawrence Russell Jr. heitir flugmaðurinn sem um ræðir en hann er 61 árs gamall og býr í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum. Flugið átti að fara fram síðastliðinn föstudagsmorgun. 

Lögreglan í Skotlandi segir Lawrence hafa verið handtekinn á flugvellinum vegna gruns um að vera að brjóta reglur er varða ölvun flugmanna og annarra starfsmanna í flugi. Lawrence er ennþá í haldi og bíður þess að koma fyrir dóm eftir allt að átta daga.

Í yfirlýsingu frá Delta kemur fram að þeir farþegar sem áttu bókað í flugið sem var frestað hafi fengið hjálp við að komast í annað flug. Talsmaður flugfélagsins vildi ekki gefa það upp í samtali við NBC hvort búið væri að segja flugmanninum upp. Hann sagði flugfélagið vera í samvinnu við yfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×