Sport

Aftur jafnaði Kolbeinn Íslandsmetið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kolbeinn Höður Gunnarsson á NM í Kaupmannahöfn í maí.
Kolbeinn Höður Gunnarsson á NM í Kaupmannahöfn í maí. FRÍ/MARTA SILJUDÓTTIR

Kolbeinn Höður Gunnarsson jafnaði í dag Íslandsmetið í 100 metra hlaupi í annað sinn á stuttum tíma þegar hann keppti á Evrópubikarmótinu í Silesia í Póllandi.

Kolbeinn Höður og Ari Bragi Kárason eiga saman metið í 100 metra hlaupi. Ari Bragi setti metið upphaflega árið 2017 þegar hann hljóp vegalengdina á 10,51 sekúndu en Kolbeinn Höður jafnaði metið í upphafi mánaðarins á móti í Bergen.

Kolbeinn Hörður varð sjöundi af sextán keppendum í hlaupinu í dag en mótið í Silesia er keppni landsliða þar sem Ísland keppir í 2.deild. Ísland er í 13. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn en þrjú lið falla niður í næstu deild fyrir neðan. 

Svo virðist sem það sé aðeins tímaspursmál hvenær Kolbeinn Höður slær metið en hann virðist í feiknaformi um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×