Innlent

Fjöl­­skylda á Ítalíu leitar Tip­sý: „Ég er búin að grenja úr mér augun“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tipsý sást síðast í Elliðaárdal síðastliðinn miðvikudag.
Tipsý sást síðast í Elliðaárdal síðastliðinn miðvikudag. Maríanna Magnúsdóttir

Fjölskyldufrí Maríönnu Magnúsdóttur tók snögga beygju þegar Tipsý, einn fjögurra hunda fjölskyldunnar, týndist degi fyrir brottför. Hennar er nú leitað en Maríanna biðlar til fólks að láta dýraleitarþjónustuna Dýrfinnu vita, verði einhver hennar var.

Tipsý týndist skömmu eftir komu í pössun í Árbænum. Maríanna segist í samtali við Vísi hafa verið að ljúka við að koma síðasta hundi fjölskyldunnar í pössun degi fyrir brottför þegar hún fékk heldur óskemmtilegt símtal. Tipsý hafði fælst og sloppið út. 

„Ég er búin að grenja úr mér augun og hef ekki borðað,“ segir Maríanna sem segist miður sín yfir málinu.

Hún segist hafa íhugað að hætta við ferðina vegna leitarinnar en vegna mikils stuðnings frá hundasamfélaginu hafi fjölskyldan farið, þrátt fyrir allt saman.

Maríanna segir Dýrfinnu og Facebook-hópinn Hundasveitina hafa unnið hörðum höndum að leitinni. Meðal annars hafi drónar og hitamyndavélar verið notaðar til leitarinnar. „Það er búið að línuleita ýmis svæði,“ segir hún.

Tipsý sást síðast í Elliðaárdal á miðvikudaginn. Maríanna biðlar til fólks að elta hanni ekki verði einhver hennar var, hún sé mikil mannafæla. Þá biður hún fólk um að hringja í símanúmer Dýrfinnu, sjái einhver til hennar, 775-4234.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×