Fótbolti

Vinícius mun leiða nefnd sem berst gegn kyn­þátta­níði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinicíus Junior hefur orðið fyrir barðinu á rasistum oftar en einu sinni.
Vinicíus Junior hefur orðið fyrir barðinu á rasistum oftar en einu sinni. Mateo Villalba/Getty Images

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins – FIFA, hefur staðfest að Vinicíus Júnior, framherji Real Madríd, muni leiða nefnd skipaða af leikmönnum. Markmið nefndarinnar er að berjast gegn kynþáttaníði.

Þetta staðfesti Infantino í viðtali við Reuters á fimmtudag. Þar kemur fram að Vini Jr., eins og leikmaðurinn er nær alltaf kallaður, muni fara fyrri nýrri nefnd sem verður eingöngu skipuð leikmönnum. Mun nefndin koma til með að aðstoða FIFA þegar kemur að bönnum og refsingum við kynþáttaníði áhorfenda.

Einnig sagði Infantino að FIFA muni lögsækja fólk sem verður uppvíst að kynþáttaníði á knattspyrnuleikjum. Hann sagði að markmiðið væri að gera slíkt hið sama við fólk sem iðkaði kynþáttaníð á samfélagsmiðlum.

„Kynþáttaníð fær ekki lengur að vera hluti af fótboltanum. Leikurinn á að vera stöðvaður um leið og slíkt gerist. Nú er nóg komið,“ sagði Infantino á fimmtudag.

Vini Jr. var beittur kynþáttaníði í leik Real Madríd gegn Valencia í maí síðastliðnum. Var það í tíunda sinn sem hann verður fyrir kynþáttaníði á leiktíðinni.

„Við þurfum að heyra hvað leikmenn hafa að segja svo þeir geti unnið í öruggu umhverfi. Við tökum þetta mjög alvarlega. Kynþáttaníð mun ekki fá að viðgangast lengur,“ sagði Infantino einnig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×