Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur en Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, sem sæti á í nefndinni, staðfestir í samtali við fréttastofu að nefndin hafi fellt virkjunarleyfið úr gildi vegna ágalla. Hún segir að kærendur hafi verið allmargir, þeirra á meðal veiðifélag og náttúruverndarsamtök.
Karolína segir úrskurðinn sennilega þann ítarlegasta sem kveðinn hafi verið upp af nefndinni. Í honum séu jafnframt veittar leiðbeiningar um hvað betur mætti fara.
Landsvirkjun hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ákvörðun nefndarinnar séu vonbrigði og slæmar fréttir fyrir íslenskt samfélag
Ógildir framkvæmdaleyfi
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í gær framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina en sama dag frestaði sveitarstjórn Rangárþings ytra afgreiðslu málsins fram í næstu viku. Niðurfelling virkjunarleyfisins ógildir væntanlega framkvæmdaleyfi þar sem virkjunarleyfi er forsenda framkvæmdaleyfis.
Landsvirkjun hefur í á þriðja áratug unnið að undirbúningi fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar en deilur vegna virkjunarinnar hafa verið töluverðar. Uppsett afl virkjunarinnar á að vera 95 MW.
Það tók Orkustofnun nítján mánuði að gefa út virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar og gagnrýndi forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, í fyrra hve langan tíma það hefði tekið.
„Áður fyrr hefur þetta tekið svona um þrjá og hálfan mánuð. Þannig að þetta er óheppilegt,“ sagði hann í viðtali við Stöð 2.
Landsvirkjun hefur boðið út fyrstu undirbúningsáfanga framkvæmda við Hvammsvirkjun. Tilboð átti að opna strax í næstu viku og var stefnt að því að hefja framkvæmdir í næsta mánuði. Þau áform eru núna uppnámi eftir ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 í gærkvöldi með viðtali við oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem taldi deilum um virkjunina lokið: