Viðskipti innlent

Tuttugu missa vinnuna þegar rækju­vinnsla Hólma­drangs verður stöðvuð

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Hólmavík.
Frá Hólmavík. Vísir/Vilhelm

Snæfell, sem er dótturfélag Samherja, hefur ákveðið að stöðva rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík um næstu mánaðarmót. Tuttugu starfsmönnum verður sagt upp.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja, en Snæfell tók yfir rekstur rækjuvinnsluna síðla árs 2019 þegar Hólmadrangur var í greiðslustöðvun. Starfsfólk var í dag upplýst um stöðu mála og að óbreyttu komi til uppsagna um mánaðamótin í samræmi við gildandi starfssamninga og reglur um hópuppsögn.

Fram kemur að rekstur Hólmadrangs hafi frá þeim tíma verið erfiður og hafi Snæfell stutt við reksturinn með ýmsum hætti, með það að markmiði að halda starfseminni gangandi.

Viðvarandi taprekstur hafi verið á síðustu árum og var tap síðasta árs 205 milljónir króna samkvæmt ársreikningi.

„Eigið fé var neikvætt um 360 milljónir króna í árslok 2022 og eiginfjárhlutfall neikvætt um 28%. Helstu eignir Hólmadrangs felast í húsnæði, búnaði og birgðum.

Í upphafi var lagt upp með að kaupa hráefni frá Noregi, Kanada, Rússlandi og fleiri löndum en engar veiðiheimildir eru í félaginu.

Allt hráefni innflutt

Allt hráefni sem unnið er í rækjuvinnslu Hólmadrangs er innflutt, aðallega frá norður Noregi og Kanada. Framleiðsla félagsins á síðasta ári var um 1.400 tonn af afurðum.

Staðsetning vinnslunnar er á margan hátt óhagstæð, flutningskostnaður mikill á hráefni til vinnslunnar. Tilfinnanlegur skortur er á frystigeymslum á Hólmavík. Þetta hefur m.a. haft í för með sér að hluti hráefnisins hefur verið geymdur í öðrum landshluta með tilheyrandi óhagræði og kostnaði,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×