Körfubolti

Jókerinn einstakur og Denver meistari í fyrsta sinn

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic hefur svarað öllum efasemdaröddum og Denver Nuggets er NBA-meistari í fyrsta sinn.
Nikola Jokic hefur svarað öllum efasemdaröddum og Denver Nuggets er NBA-meistari í fyrsta sinn. AP/Jack Dempsey

Serbinn Nikola Jokic var að sjálfsögðu í aðalhlutverki í nótt þegar Denver Nuggets varð NBA-meistari í körfubolta í fyrsta sinn frá upphafi.

Leikmenn Denver fögnuðu vel og lengi á heimavelli eftir að hafa unnið Miami Heat 94-89, og þar með úrslitaeinvígi liðanna af miklu öryggi, 4-1. Eftir 47 ára veru í NBA-deildinni gátu Denver-búar fagnað með tilheyrandi flugeldasýningu.

Leikurinn í gær var reyndar engin flugeldasýning en enn og aftur var það Jokic sem sífellt kom liðsfélögum sínum til bjargar, en hann skoraði 28 stig í leiknum og tók 16 fráköst.

Jokic er fyrsti leikmaður sögunnar til að skora flest stig (600), taka flest fráköst (269) og gefa flestar stoðsendingar (190) í einni úrslitakeppni, og hann var að sjálfsögðu verðlaunaður með Bill Russell verðlaunagripnum sem verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar.

Jokic var valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2021 og 2022 en verðlaunin í gær höfðu aðra og meiri þýðingu.

„Við erum ekki í þessu fyrir okkur sjálfa heldur fyrir félagann við hliðina á okkur. Þess vegna hefur þetta meiri þýðingu,“ sagði Jokic.

Denver þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum í nótt og tilhugsunin um að geta tekið við meistarabikarnum í fyrsta sinn, og spennan sem því fylgdi, gæti hafa valdið því að aðeins tvö af fyrstu 22 þriggja stiga skotum liðsins fóru niður, sem og sex af fyrstu 13 vítaskotum.

Miami var stigi yfir þegar 2:45 voru eftir af leiknum, eftir átta stig í röð frá Jimmy Butler. Denver náði hins vegar forystunni á ný og var þremur stigum yfir þegar fimmtán sekúndur lifðu leiks. Brown komst þá í þriggja stiga skot sem klikkaði og leikmenn Denver voru nógu öruggir á vítalínunni til að landa sigrinum, og þar með titlinum sem fagnað var með ýmsum hætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×