Handbolti

Ágúst framlengir og gæti náð áratug með Val

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson verður áfram þjálfari Valsliðsins í Olís-deild kvenna.
Ágúst Þór Jóhannsson verður áfram þjálfari Valsliðsins í Olís-deild kvenna. Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Vals, hefur skrifað undir fjögurra ára framlengingu á samningi sínum við félagið.

Ágúst tók við Valsliðinu árið 2017 og gerði liðið að deildarmeisturum á sínu fyrsta tímabili. Árið 2019 vann liðið svo þrefalt undir hans stjórn og síðan þá hefur Valur bætt við sig bikarmeistaratitli árið 2022 og Íslandsmeistaratitli nú í vor.

Þá hefur Ágúst ekki setið auðum höndum á milli verkefna með Val því hann hefur einnig verið í þjálfarateymi íslensku A-landsliðanna, sem og að þjálfa U19 ára landslið kvenna. Ágúst stýrði A-landsliði karla einnig í seinustu tveimur verkefnum liðsins ásamt Gunnari Magnússyni, þjálfara karlaliðs Aftureldingar.

Núr samningur Ágústs við Val gildir út tímabilið 2027 og mun hann því vera búinn að stýra liðinu í áratug að samningstímanum loknum.

“Valur er eitt af stærstu liðum landsins og ég er ánægður með að vera búinn að framlengja samninginn minn hér til lengri tíma. Við erum með frábæran hóp af leikmönnum sem er spennandi að vinna með ásamt því að það er mikill efniviður á leiðinni upp í yngri flokkum félagsins á næstu árum sem munu koma inn í hópinn hjá okkur,” sagði Ágúst við undirskrift fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×