Innlent

Komin til starfa en launin enn óákveðin

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vonandi fá unglingar í Vinnuskólanum borgað í sumar. 
Vonandi fá unglingar í Vinnuskólanum borgað í sumar.  vísir/vilhelm

Unglingar hófu störf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur í dag. Svo vill til að upplýsingar um kaup og kjör þeirra liggja enn ekki fyrir.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vekur athygli á þessu í fyrirspurn á fundi umhverfis og skipulagsráðs. Í samtali við Vísi segir hann að vonast hafi verið til að þessu yrði kippt í liðinn en það hafi ekki verið gert. 

„Þetta eru fyrstu spor þessara krakka á vinnumarkaði og borgin ætti að vera til fyrirmyndar í þessu. Það myndu ekki margir fullorðnir láta ráða sig í vinnu án upplýsinga um kaup og kjör,“ segir Kjartan.

„Laun fyrir sumarið 2023 hafa ekki verið ákvörðuð,“ segir einfaldlega á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Sem fyrr segir hófu ungmennin störf í dag, 9. júní.

Fyrirspurn Kjartans í heild sinni:

,,Ábendingar hafa borist um að laun vegna yfirstandandi sumars hafi enn ekki verið ákveðin hjá Vinnuskóla Reykjavíkur. Slíkt er óheppilegt enda eru aðeins tveir dagar í að nemendur komi til starfa hjá skólanum. Margir unglingar öðlast fyrstu reynslu sína af vinnumarkaði hjá Vinnuskólanum og æskilegt er að upplýsingar um kaup og kjör liggi fyrir þegar þeir skrá sig til starfa.

Spurt er:

Af hverju hafa umrædd laun ekki enn verið ákveðin?

Hvenær verða þau ákveðin?“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×