Fótbolti

Fyrrum dómari segir KSÍ gengis­fella eigin her­ferð til stuðnings dómurum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson
Vísir/Hulda Margrét

Fyrrum knattspyrnudómari segir að Knattspyrnusamband Íslands hafi gengisfellt eigin herferð til stuðnings dómurum hér á landi. 

Mikil umræða hefur verið um leik Breiðabliks og Víkings í Bestu deild karla síðastliðinn föstudag. Þar var mikil dramatík, þjálfarar og leikmenn tóksut á eftir leik og stór orð voru látin falla í viðtölum að honum loknum.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, lét Ívar Orra Kristjánsson dómara leiksins heyra það í viðtölum eftir leik og í kjölfarið skapaðist umræða um hvort Arnar fengi leikbann á launum.  Arnar sagði Ívar Orra hafa verið „ömurlegan“ og frammistaða hans „hreinasta skömm“.

Á fundi aganefndar KSÍ í gær var Arnar ekki dæmdur í leikbann og í samtali við Morgunblaðið í dag sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, að hún myndi ekki vísa ummælum hans til aganefndar þar sem Arnar hafi haft orð um frammistöðu Ívars Orra en ekki sakað hann um óheiðarleika eða svindl.

Nú hefur margreyndur dómari, Oddur Helgi Guðmundsson, tjáð sig um málið á Twitter. Hann virðist ekki vera allskostar sáttur með viðbrögð KSÍ og segir sambandið gengisfella herferð sína „Átak vegna hegðunar í garð dómara 2023“.

„Það tók ykkur innan við 2 vikur að gengisfella þessa herferð,“ segir Oddur Helgi og merkir Knattspyrnusambandið í færslu sinni á Twitter.

„Spurning um að taka hana úr birtingu?“ bætir hann við og ætla má að hann sé þar að vísa í að Arnar Gunnlaugsson hafi ekki fengið leikbann fyrir sín ummæli eftir leik Breiðabliks og Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×