Kolbeinn Höður og Ari Bragi Kárason eiga metið í 100 metra hlaupi saman eftir að Kolbeinn Höður jafnaði það á móti í Bergen á laugardag.
Í dag keppti Kolbeinn Höður á Copenhagen Athletics Games í Kaupmannahöfn og kom hann í mark á 10,45 sekúndum í undanúrslitahlaupinu en gamla metið var 10,51 sekúnda. Kolbeinn Höður fær metið þó ekki skráð þar sem meðvindur í hlaupinu var of mikill.
Kolbeinn Höður hafnaði í öðru sæti í úrslitahlaupinu og kom þar í mark á tímanum 10,58 eða sjö hundraðshlutum frá meti hans og Ara Braga. Bandaríkjamaðurinn Marvin Bracy varð fyrstur á tímanum 10,36.
Þá keppti Kolbeinn Höður einnig í 200 metra hlaupi og varð þar fimmti í úrslitum á tímanum 21,56 sekúndur.
Nálgast met Jóns Arnars
Daníel Ingi Egilsson vann sigur í langstökkskeppni mótsins og hann er heldur betur farinn að nálgast tæplega þrjátíu ára gamalt með Jóns Arnars Magnússonar í greininni.
Daníel Ingi stökk lengst 7,92 metra sem er hans besti árangur og aðeins átta sentimetrum frá meti Jóns Arnars. Fyrir keppnina í kvöld átti Daníel Ingi best 7,61 metra og bætti sig því svo um munar.
Aníta Hinriksdóttir keppti í 800 metra hlaupi og hafnaði í 5. sæti á tímanum 2:04,61 mínúta. Þá hafnaði Irma Gunnarsdóttir í öðru sæti í langstökki en hún stökk lengst 6,35 metra. Birna Kristín Kristjánsdóttir stökk lengst 5,94 metra og lenti í sjötta sæti.
Að lokum keppti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200 metra hlaupi. Hún lenti í sjöunda sæti í úrslitum og kom í mark á tímanum 24,32 sekúndur.