Spilað er upp á peninga og vissara að tryggja sér pláss sem fyrst á tix.is. Tommi Steindórs dagskrárgerðarmaður á X977 og körfuboltasérfræðingur stýrir mótinu með grjótharðri hendi.
„Ég dæmi, ég ræð og það er bannað að rífa kjaft við mig,“ segir hann en leikgleðin verði samt í fyrirrúmi eins og áður en götuboltamótið fór fram í fyrra við frábærar undirtektir.

„Mótið tókst hrikalega vel í fyrra og verður enn betra í ár. Veðurguðirnir eru með okkur í liði og spáin er flott fyrir helgina,“ segir Tommi en alls kepptu 28 lið í fyrra í einmuna veðurblíðu og komust færri að en vildu. Skipulagið verður eins í ár, fyrir utan eitt.
„Úrvalsdeildarleikmenn eru ekki gjaldgengir í götuboltann en þeir fundu „loophole“ í fyrra þar sem borderline landsliðsmenn sem spila í háskólum erlendis mættu en við höfum lagt blátt bann við því, enda götuboltinn meira fyrir okkur „bumburnar“. Að því sögðu vil ég að sjálfsögðu fá sem flesta með, kvennalið, karlalið, blönduð lið, unga og gamla. Minni bara á að liðin eiga að mæta í samstæðum búningum.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá mótinu í fyrra þar sem stemmingin var hreint út sagt frábær.








