Kristján Loftsson, forstjóri og aðaleigandi Hvals, situr í stjórn veiðarfæraframleiðendans en söluandvirði hinna nýju hluta sem félagið seldi í útboðinu nam 10,9 milljörðum króna. Samtals bárust um 3.700 áskriftir fyrir um 32,3 milljarða og var því ríflega þreföld umframeftirspurn.
Eignarhlutur Hvals, sem hafði upplýst um það í útboðslýsingu Hampiðjunnar að félagið áformaði að skrá sig fyrir meira en fimm prósent af þeim hlutum sem væru boðnir til sölu, þynnist nokkuð út eftir hlutafjárútboðið. Fjárfestingafélagið ræður núna yfir tæplega 233 milljónum hluta að nafnvirði sem jafngildir um 36,6 prósenta eignarhlut en var áður með 41,5 prósenta hlut.
Markaðsvirði þess hlutar – miðað við útboðsgengið 130 krónur á hlut í B-bókinni – nemur í dag ríflega 30 milljörðum króna.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar síðla dags í gær kom jafnframt fram að Kristján hefði persónulega sjálfur keypt í útboðinu fyrir nálægt 20 milljónir króna. Í fyrrnefndri útboðslýsingu hafði verið upplýst um fyrirhugaða þátttöku hans og fjögurra annarra stjórnarmanna og stjórnenda félagsins í útboðinu.
Útboðsgengið í A-bókinni, fyrir tilboð undir 20 milljónir, var 120 krónur á hlut en liðlega sexföld umframeftirspurn var þar meðal almennra fjárfesta. Í tilfelli stærri fjárfesta sem sóttust eftir því að kaupa fyrir meira en 20 milljónir í B-bókinni endaði gengi bréfanna hins vegar í um 8,3 prósentum hærra verði. Seldir hlutir í áskriftarbók A námu um 2 milljörðum en um 8,8 milljarðar í B-bókinni.
Hlutabréfaverð Hampiðjunnar stendur núna í 132 krónum á hlut í nærri 27 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag.
Í tilkynningunni til Kauphallarinnar var upplýst um þátttöku tveggja annarra stjórnarmanna Hampiðjunnar í útboðinu. Guðmundur Ásgeirsson keypti þannig fyrir um 32 milljónir króna, bæði í eigin nafni og eins í gegnum félög, en hann er einn stærsti hluthafi Hampiðjunnar og var eignarhaldsfélagið hans Hlér með tæplega þriggja prósenta hlut fyrir útboðið. Þá keypti Sigrún Þorleifsdóttir, sem einnig situr í stjórn Hampiðjunnar, fyrir um 3,6 milljónir.
Á meðal stjórnenda Hampiðjunnar sem tóku þátt í útboðinu forstjóri félagsins, Hjörtur Erlendsson, en hann keypti fyrir um 32 milljónir. Hann átti enga hluti í fyrirtækinu fyrir útboðið. Í útboðslýsingu hafði komið fram að miðað yrði við að skerða ekki áskriftartilboð starfsmanna Hampiðjunnar í A-bókinni.
Áætlaður lágmarkskostnaður Hampiðjunnar vegna útboðsins, sem inniheldur meðal annars söluþóknun til ráðgjafa, kostnaður við samþykki fjármálaeftirlit Seðlabankans á útboðslýsingu og gjöld til Kauphallarinnar, var sagður vera um 180 milljónir króna. Sú fjárhæð var miðuð við að hið nýja hlutafé yrði selt allt á genginu 120 krónur á hlut. Ljóst er því að kostnaður félagins mun reynast eitthvað hærri enda var útboðsgengið 130 krónur á hlut í áskriftarbók B.
Það var Arion banki sem hafði umsjón með hlutafjárútboði Hampiðjunnar.
Þegar niðurstaða útboðsins lá fyrir seint síðasta föstudag var haft eftir forstjóra félagsins það væri „gríðarlega ánægjulegt“ að finna mikinn áhuga fjárfesta á Hampiðjunni. Hlutafjáraukninginni er ætlað að styrkja fjárhagsskipan félagsins og gera því kleift að raungera samlegðartækifæri sem felast í kaupum þess á Mørenot fyrr á árinu. Fyrirhugað er að um 60 prósent af ágóða almenna útboðsins verði nýttur til endurskipulagningar á langtímaskuldum Mørenot og að 40 prósent verði nýtt í fjárfestingar til að nýta samlegðartækifæri tengd kaupunum.
Gert er ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar 2023, eftir kaupin á Mørenot, komi til með að nema 320 - 340 milljón evrum og að EBITDA hlutfall verði á bilinu 13,5 – 14,5 prósent.
Stefnt er að því að viðskipti með hlutabréf félagsins á Aðalmarkaði hefjist þann 9. júní næstkomandi.