Li sagði heimsbyggðina rúma bæði Kína og Bandaríkin og að stórveldin tvö ættu að reyna að finna sameiginlegan flöt til að byggja á. Hann hefur hins vegar sakað Bandaríkin um „kaldastríðs-hugsunarhátt“, sem hafi aukið líkurnar á átökum.
Yfirvöld vestanhafs sökuðu Kínverja á dögunum um „óörugga“ för kínversks tundurspillis nærri bandarísku herskipi á Taívan-sundi. Með í för var skip frá Kanada og stjórnvöld í báðum ríkjum sögðu fleyin sannarlega hafa verið á alþjóðlegu hafsvæði.
Kínverjar gagnrýndu hins vegar bæði Bandaríkjamenn og Kanadamenn fyrir að skapa áhættusamar aðstæður með ögrandi tilburðum.
Í ræðu sinni sagði Li að Kína myndi ekki leyfa Bandaríkjunum og bandamönnum að nota eftirlit á hafsvæðinu sem afsökun fyrir að eigna sér siglingaleiðir. Spurður um ofangreint atvik sagði hann aðeins að utanaðkomandi ríki væru að skapa spennu á svæðinu.
Li og Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tókust í hendur á opnunarkvöldverði öryggisráðstefnu International Institute for Strategic Studies í Singapore en áttu ekki fund.
Li sætir refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjamanna vegna vopnakaupa frá Rússlandi. Þær fela meðal annars í sér að hann getur ekki ferðast til Bandaríkjanna. BBC hefur eftir Zhou Bo, fyrrverandi yfirmanni í kínverska hernum, að aflétting refsiaðgerðina sé forsenda fyrir samtali milli Li og Austin.