Körfubolti

Brjálaður eftir tapið fyrir Miami: „Fjanda­kornið, vörnin þarf að vera miklu betri“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Malone lét gamminn geysa eftir tap Denver Nuggets fyrir Miami Heat í nótt.
Michael Malone lét gamminn geysa eftir tap Denver Nuggets fyrir Miami Heat í nótt. getty/Matthew Stockman

Michael Malone, þjálfari Denver Nuggets, lét sína menn heyra það eftir að þeir töpuðu fyrir Miami Heat, 108-111, í öðrum leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta.

Denver var átta stigum yfir fyrir 4. leikhluta en fékk á sig 36 stig í honum og tapaði leiknum. Staðan í einvíginu er jöfn, 1-1, en næstu tveir leikir eru á heimavelli Miami.

„Tölum um framlag,“ sagði foxillur Malone eftir leikinn í nótt. „Þetta eru NBA-úrslitin. Við erum að tala um framlag. Það er mitt aðal áhyggjuefni. Þið hélduð eflaust að ég hafi verið að búa til einhverja sögu þegar ég sagði að við hefðum ekki spilað vel í fyrsta leiknum. Við gerðum það ekki.“

Malone var sérstaklega ósáttur við 4. leikhlutann sem Denver tapaði með ellefu stigum, 36-25.

„Þeir byrjuðu 4. leikhlutann 13-2 og þá fórum við út af sporinu. Þeir fengu allt sem þeir vildu, hvort sem það voru þriggja stiga skot eða sniðsskot, og það gerði þeim kleift að sitja aftur í svæðisvörninni sinni, hægja á leiknum, við náðum ekki stoppum og áttum svo erfitt með að skora hinum megin,“ sagði Malone.

„Fjandakornið, vörnin þarf að vera miklu betri. Vörnin hefur ekki verið til staðar í 4. leikhluta í fyrstu tveimur leikjunum.“

Þriðji leikur Miami og Denver fer fram aðfaranótt fimmtudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×