Körfubolti

„Ætluðum að enda með fjögurra efstu liða í vetur og ætlum ekkert að gera verr á næsta ári“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maté Dalmay tók við Haukum fyrir tveimur árum.
Maté Dalmay tók við Haukum fyrir tveimur árum. stöð 2

Máté Dalmay skrifaði undir fimm ára samning við Hauka á dögunum. Hann hlakkar til að byggja liðið upp til framtíðar og ætlar sér stóra hluti með það þótt hann sé meðvitaður um að ýmis ljón gætu verið á veginum.

„Ef við ætlum að byggja upp og fá til okkar 16-19 ára leikmenn og við ætlum að búa til hlutverk fyrir þá verður að vera pláss til að gera mistök og jafnvel tapa einhverjum leikjum. Þú vinnur ekki alltaf þegar þú ert með unga leikmenn í stórum hlutverkum. Þannig byrjar þetta. Þetta tekur tíma og byrjar kannski með þjálfaranum að vera með plan og stefnu, að menn skoði ekki í kringum sig á árs fresti og þá fer stefnan kannski í vaskinn,“ sagði Máté í samtali við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann segist vera tilbúinn í þessa uppbyggingu þrátt fyrir að vera ekki þolinmóðasti maður í heimi.

„Ég er það alls ekki en ég var og er seldur á pælinguna. Við verðum áfram með þrjá erlenda leikmenn og erum klárlega að fara að stefna á að komast lengra en í vetur,“ sagði Máté en Haukar enduðu í 3. sæti Subway-deildarinnar og féllu úr leik fyrir Þór, 3-2, í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Klippa: Viðtal við Máté Dalmay

„En menn eru svolítið meðvitaðir um að ef þetta tekst ekki í vetur erum við samt með leikmenn sem eru samt að taka næsta skref á næsta ári. Við ætluðum að enda með fjögurra efstu liða í vetur og ætlum ekkert að gera verr á næsta ári þó svo við ætlum að treysta ungum íslenskum leikmönnum til að gera það,“ bætti Maté við.

Allt viðtalið við Máté Dalmay má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×