Innlent

Banda­ríkja­menn virðast vilja bæta sam­skiptin við Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðgjafar Biden segja hann ekki hafa nokkurn áhuga á átökum við Kína.
Ráðgjafar Biden segja hann ekki hafa nokkurn áhuga á átökum við Kína. AP/Andrew Harnik

Ráðgjafar Joe Biden Bandaríkjaforseta segja hann meðvitaðan um að bandamenn Bandaríkjamanna við Kyrrahaf hafi afar takmarkaðan áhuga á að vera dregnir inn í langvarandi átök milli Bandaríkjanna og Kína.

Ummælin létu þeir falla á netráðstefnu á vegum United States Studies Centre við University of Sydney í Ástralíu.

Ráðgjafar Biden sögðu forsetann vilja gefa bandamönnum og öðrum andrými til að eiga uppbyggileg samskipti við Kína og að hann væri meðvitaður um að það væri ekki góð leið til að styrkja samskipti við önnur ríki með því að troða afstöðu Bandaríkjanna upp á þau.

„Þannig er hann ekki,“ sagði Edgard Kagan, yfirmaður málefna Austur-Asíu og Eyjaálfu hjá bandaríska þjóðaröryggisráðinu.

Stjórnvöld í Kína sökuðu G7-ríkin um áróðursherferð gegn Kínverjum þegar leiðtogar G7 funduðu í Hiroshima í Japan á dögunum. Biden sagði hins vegar eftir fundinn að menn mættu eiga von á þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.

Þá hafa stjórnvöld í Ástralíu sagst vilja koma á stöðugleika í samskiptum sínum við Kína.

Kagan sagði Biden hafa verið afar skýrann um það að hann vildi ekki átök við Kína, jafnvel þótt það væri alveg ljóst að ríkin myndu eiga í harðri samkeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×