„Þetta er sannkallað retró hús,“ segir Daníel Rúnar Elíasson, fasteignasali hjá Hákot í samtali við Vísi. Húsið var byggt árið 1968 og segir Daníel sömu eigendur hafa verið að húsinu allar götur síðan, þar til nú. Innréttingarnar minna hressilega á áttunda áratuginn, enda upp settar þá.
„Þær eru gríðarlega vel farnar og það sést lítið sem ekkert á þeim og ekki heldur teppum á gólfinu,“ segir Daníel. Hann segir eigendurna fyrir nokkrum árum hafa ætlað að minnka við sig en hætt við, enda húsið þeim kærkomið.
„Þá fékk ég einmitt mikið af fyrirspurnum frá fólki um innbúið. Einhverjir sem voru áhugasamir um að kaupa ljósin og hitt og þetta. Þetta var svona eins og góði hirðirinn í rauntíma,“ segir Daníel í gríni.
Húsið er á einni hæð og fimm herbergi, eins og fram kemur á fasteignavef Vísis. Það er 139,6 fermetrar að stærð, auk þess sem 41,6 fermetra bílskúr fylgir húsinu. Samanlagt er eignin því 181,2 fermetrar og er uppsett verð 87,9 milljónir króna.
Daníel segir mikinn áhuga hafa verið á húsinu og vel mætt á opið hús í gær. „Fólk var mest hissa á því að þetta hefði aldrei verið notað í bíómynd,“ segir Daníel hress í bragði.










