Það hefur ekki farið framhjá neinum íþróttaáhugamanni að Tindastóll varð Íslandsmeistari í körfuknattleik í fyrsta sinn síðastliðinn fimmtudag. Stólarnir tryggðu sér titilinn með sigri á Val í oddaleik fyrir framan troðfulla Origo-höll.
Einn af lykilmönnum Tindastóls í vetur var Litháinn Adomas Drungilas en hann hefur nú framlengt samning sinn við Tindastól til næstu tveggja ára. Frá þessu var greint á Instagramsíðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls nú í dag.
Adomas Drungilas var eins og áður segir einn af lykilmönnum Tindastóls í vetur en hann skilaði 11,5 stigum og 6,2 fráköstum að meðaltali í þeim 34 leikjum sem hann spilaði í vetur. Drungilas var að vinna sinn annan Íslandsmeistaratitil á ferlinum því hann varð einnig Íslandsmeistari með Þór frá Þorlákshöfn árið 2021.
Enn er óljóst hver verður þjálfari Tindastóls á næstu leiktíð en Pavel Ermolinskij, sem tók við liðinu í janúar og gerði það að Íslandsmeisturum, sagði í viðtali eftir að titillinn var í höfn að óljóst væri hvort hann myndi halda áfram.