Körfubolti

Miami í góðri stöðu eftir frábæran endasprett

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jimmy Butler ánægður á svip í leiknum í nótt.
Jimmy Butler ánægður á svip í leiknum í nótt. Vísir/Getty

Miami Heat er komið í lykilstöðu í úrslitaeinvígi Austurdeildar NBA-deildarinnar eftir sigur í fyrstu tveimur leikjunum gegn Boston. Liðin leika næst í Miami.

Miami hefur komið mörgum á óvart í úrslitakeppni NBA-deildarinnar en liðið hafnaði í 8. sæti deildarinnar og þurfti að fara í umspil til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Þar hefur liðið slegið út topplið Milwaukee Bucks sem og New York Knicks og er nú komið í 2-0 í einvíginu gegn Boston Celtics eftir sex stiga sigur í nótt.

Miami byrjaði betur í leiknum í nótt og náði átta stiga forskoti í fyrsta leikhluta en Boston náði þá góðu áhlaupi og kom sér ellefu stigum yfir í öðrum leikhluta.  Þá kom áhlaup hjá gestunum sem leiddu 54-50 í hálfleik í TD Garden í Boston.

Liðin héldu áhlaupunum áfram í seinni hálfleik. Boston breytti stöðunni úr 62-62 í 79-68 á örfáum mínútum og náði svo tólf stiga forskoti í upphafi fjórða leikhluta.

Jimmy Butler og Grant Williams lenti saman í leiknum í nótt.Vísir/Getty

En það var Miami sem átti betri lokakafla. Liðið lauk leiknum með 24-9 áhlaupi og tryggði sér að lokum 111-105 sigur. Miami er þar með komið í 2-0 forystu í einvíginu en næstu tveir leikir fara fram á heimavelli liðsins í Miami.

Jimmy Butler var stigahæstur hjá Miami með 27 stig en eftir að dæmd var sóknarvilla á Butler í stöðunni 98-96 fyrir Boston tókst Butler að jafna metin í 100-100 og koma liðinu síðan í forystuna. Bam Adebayo setti sömuleiðis mikilvæg stig undir lokin og lauk leiknum með 22 stig, 17 fráköst og 9 stoðsendingar.

Hjá Boston skoraði Jayson Tatum 34 stig og Jaylen Brown kom næstur með 16 stig. Þriðji leikur liðanna fer fram í Miami annað kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 00:30.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×