Jim Brown lék allan sinn feril með Cleveland Brown sen hann lék með liðinu á árunum 1957-65. Hann er talinn vera einn besti hlauparinn í sögu deildarinnar og var tekinn inn í frægðarhöll NFL árið 1971.
Brown lék háskólabolta með Syracuse háskólanum og árið 2020 var hann valinn besti háskólaleikmaður allra tíma í Bandaríkjunum. Treyja hans númer 44 hjá Syracuse hefur verið hengd upp í rjáfur sem og treyja númer 32 hjá Cleveland Browns.
Á ferlinum hljóp Browns 12.312 jarda með boltann og skoraði 106 snertimörk. Hann hljóp að meðaltali 5,2 jarda í hverju hlaupi sem er á meðal þess besta í sögunni og þá er hann eini leikmaðurinn sem náði því afreki að hlaupa að meðaltali 100 jarda í leik á ferlinum.
Eftir að ferlinum lauk hóf Brown leiklistarferil og lék í yfir fimmtíu kvikmyndum, flestum þeirra á áttunda áratugnum.
Brown lést á heimili sínu í gær 87 ára að aldri. Fjölmargir hafa minnst hans á samfélagsmiðlum í dag og á meðal myndbanda sem birst hafa er myndband sem sýnir körfuknattleiksmanninn LeBron James hneigja sig fyrir Brown þegar hann sér hann á meðal áhorfenda á leik með Cleveland Cavaliers fyrir nokkrum árum síðan.