Handbolti

Bjarki Már og félagar úr leik eftir tap í Póllandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem skoruðu 50 mörk gegn Ferencvaros í ungversku deildinni í dag.
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem skoruðu 50 mörk gegn Ferencvaros í ungversku deildinni í dag. Veszprem

Pólska liðið Kielce tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta eftir öruggan sigur á Veszprem á heimavelli sínum í dag.

Fyrir leikinn í dag var einvígið galopið eftir 29-29 jafntefli liðanna í fyrri leiknum sem fram fór á heimavelli Veszprem í Ungverjalandi.

Það voru hins vegar heimamenn í Kielce sem voru sterkari aðilinn nánast frá upphafi leiks í dag. Þeir komust í 6-2 eftir rúmlega tíu mínútna leik, leiddu 18-12 í hálfleik og stefndu hraðbyri til Kölnar í úrslitahelgina.

Veszprem gekk lítið að saxa á forskot Kielce í síðari hálfleiknum. Þeir náðu muninum niður í fjögur mörk snemma í síðari hálfleik en þá gaf Kielce í og náði 28-20 forskoti þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar voru í raun ekkert spennandi. Kielce sigldi sigrinum örugglega í höfn og unnu að lokum 31-27 sigur en Veszprem skoraði síðustu fjögur mörk leiksins. Bjarki Már Elísson var í liði Veszprem í dag en komst ekki á blað. Haukur Þrastarson var ekki með Kielce en hann er ennþá frá vegna meiðsla sem hann varð fyrir fyrr í vetur.

Lið Kielce er þar með komið í undanúrslit keppninnar ásamt PSG og Magdeburg. Í kvöld kemur svo í ljós hvort það verður Barcelona eða danska liðið GOG sem næla í síðasta sæti undanúrslitanna en Barcelona er með sjö marka forskot eftir fyrri leik liðanna í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×